Listaverkasafn Fjallabyggðar

  Bjarkey Gunnarsdóttir formaður menningarnefndar Guðrún Þórisdóttir - Garún bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2012 Í upphafi vil ég segja að til að

Bæjarlistamaður 2012 - Guðrún Þórisdóttir - Garún  Bjarkey Gunnarsdóttir formaður menningarnefndar
Guðrún Þórisdóttir - Garún bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2012


Í upphafi vil ég segja að til að okkur farnist vel sem einstaklingum og í samfélagi skipti máli að markmið okkar samræmist þeim gildum sem við skynjum, sköpum og virðum í andlegu lífi okkar. Þegar harðnar á dalnum og flestir velta fyrir sér hverri krónu er nauðsynlegt að hlú að hinum andlega veruleika og lífsgildum og þurfum við að eiga samræðu um hver þeirra við viljum hafa í hávegum.


Ísleifur Konráðsson listmálari sagði:

Ef ég væri byggingameistari mundi ég hafa húsin skrautlegri og meira í samræmi við skýin. 

Þetta á svo sannarlega við um þann bæjarlistamann sem við tilnefnum hér í dag.

Guðrún Þórisdóttir – eða Garún - er fædd í Reykjavík 1971. Eins og hún sjálf segir frá er hún frumburður föðurs og örverpi móðurs, eða með öðrum orðum “frumvarp”! Hún er í sambúð með Halldóri Guðmundssyni og eiga þau soninn Viljar sem er á 9 ári.

Garún útskrifaðist úr Myndlistaskóla Akureyrar árið 1994 í fagurlistadeild og hefur unnið óslitið að list sinni síðan. Hún hefur haldið fjölmargar sýningar á verkum sínum og tekið þátt í samsýningum bæði hérlendis og erlendis á undanförnum árum. Einnig var hún gestalistamaður í Gmund Austurríki árið 1996.

Garún gerir ekki upp á milli efna við listsköpun sína þó hún vinni að mestu með olíuliti á striga þá notast hún líka við blandaða tækni. Lífið og tilveran frá sjónarhorni konu er mest áberandi í listsköpun Garúnar enda má finna þær í flestum hennar verkum. Hún túlkar í verkum sínum góðar og slæmar upplifanir, óskir og drauma, sorgir og örvæntingu og væntingar og vonir í gegnum hugarheim kvenna.

Garún er mikið náttúrubarn og kemur það sterkt fram í listsköpun hennar. Hún hefur sjálf sagt að náttúran tali til hennar með sínum dulmagnaða krafti og ljósaskiptum.

Í raun eru verkin hennar bæði jarðnesk og ójarðnesk i fegurð sinni, gjarnan skýrar línur, staðar og tímaleysi, rökfærsla á eigin forsendum. Garún hefur skapað sér sérstakan og persónulegan stíl sem einkennist af frumlegri og oft óhefðbundinni efnismeðferð og djarfri útfærslu.

Verkin hennar Garúnar má sjá í ýmsum stofnunum og fyrirtækjum m.a. í Sjöfn á Akureyri, Fjallabyggð, Sparisjóði Ólafsfjarðar, Ramma og Menntaskólanum á Tröllaskaga. Í bænum okkar Fjallabyggð eru mörg gallerí sem skipa veglega sess í menningarlífi okkar og hafa mikið gildi í ferðaþjónustunni. Garún rekur eitt slíkt samhliða vinnustofu sinni að Aðalgötu 7 hér í Ólafsfirði.

Bjarkey Gunnarsdóttir formaður menningarnefndar

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.13 2009 - Stefna ehf