Listaverkasafn Fjallabyggðar

Sandra Finnsdóttir afhendir Örlygi viðurkenninguna bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2011   Örlygur Kristfinnsson er bæjarlistamaður Fjallabyggðar

Bæjarlistamaður 2011 - Örlygur Kristfinnsson fjöllistamaður


Sandra Finnsdóttir afhendir Örlygi viðurkenninguna bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2011

 

Örlygur Kristfinnsson er bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2011

Örlygur hefur verið áberandi í lista- og menningarlífi Siglufjarðar um áratuga skeið.  Hann er menntaður myndlistarmaður og hefur haldið sýningar á verkum sínum auk þess sem bæjarbúar hafa fengið að njóta þeirra á annan hátt, t.d. á jólakortum Síldarminjasafnsins.  En helsta verk Örlygs er að leiða uppbyggingu og hönnun Síldarminjasafns Íslands og hefur þar farið fram ómetanlegt starf undir öryggri forystu hans.  Má með sanni lýsa safninu sem einu stóru og margslungnu listaverki þar sem hvert smáatriði fær þó að njóta sín og sagan verður ljóslifandi. Auk þess er safnið orðið eitt helsta menningarhús sveitarfélagsins og fara þar fram fjölmargir listviðburði á hverju ári.

Á síðasta ári steig Örlygur ný og gæfurík spor á sínum listamannsferli er hann lagði fyrir sig ritstörf með áhrifaríkum hætti.  Svipmyndir úr síldarbæ hét bókin sem Örlygur sendi frá sér og innihélt hún mannlýsingar frá síldarárunum á Siglufirði byggðar á ótal viðtölum sem Örlygur hefur átt við fólk sem upplifði þessa tíma.  Vakti bókin töluverða athygli og fékk lofsamlega dóma.  Önnur bók er í smíðum hjá Örlygi, gerist hún einnig á síldarárunum en er af öðrum toga, Örlygur myndskreytir þá bók einnig listilega.

Auk þess sem að ofan er getið má nefna störf Örlygs með Herhúsfélaginu, við uppbyggingu Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar og söng hans með kvæðamannafélaginu Fjallahnjúkum sem kynnir íslensku þjóðlögin fyrir innlendum jafnt sem erlendum gestum Fjallabyggðar.

( texti: Þórarinn Hannesson)

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.13 2009 - Stefna ehf